Biðstofa Radix

Rótarenda aðgerðir

Hvenær er rótarendaaðgerð framkvæmd?

Þrátt fyrir að árangur af rótfyllingum og endurrótfyllingum sé nokkuð góður þá kemur það fyrir að græðsla á sér ekki stað eða ný sýking myndast mánuðum eða árum eftir meðferðina. Er þá einn af meðferðarmöguleikunum til að bjarga tönninni þinni smásjáraðgerð á rótarenda.

Hvað er gert í rótarendaaðgerð?

Áður en aðgerðin er staðfest þá er tekin þrívíddar röntgenmynd til að meta aðgerðarsvæðið og tönnina betur.

Í aðgerðinni er sýkingin við rótarendann fjarlægð og rótarendinn styttur. Hluti af gömlu rótfyllingunni er svo fjarlægður með ultrasónísku tæki og vefjavænu fyllingarefni komið fyrir í rótarendanum. Í aðgerðinni er mögulegt að bera kennsl á tannbeinsörsprungur og rótarsprungur sem erfitt er að greina á röntgenmyndum en þessar sprungur hafa mikil áhrif á meðferðarútkomu. Til þess að greina sprungurnar er notast við þar til gert ljós og sérstakan lit. Vefurinn er að lokum saumaður en saumarnir eru fjarlægðir 4-7 dögum seinna.

Á næstu mánuðum grær síðan beinið í kringum rótarendann og er tekin mynd aftur eftir 12 mánuði til að meta árangur meðferðarinnar.

Við hverju má búast eftir rótarendaaðgerð?

Rótarendaaðgerð fylgja yfirleitt mildir verkir sem meðhöndlaðir eru með bólgueyðandi verkjalyfjum. Einnig má búast við bólgu og í sumum tilfellum mari. Bólgan gengur yfirleitt niður á um það bil 5 dögum. Flestir snúa til vinnu daginn eftir aðgerð.

Sjaldan þarf að skrifa upp á sýklalyf en það kemur þó fyrir. Ef miklir verkir, bólga og vont bragð er nokkrum dögum eftir aðgerð þá þarf að hafa samband við okkur sem fyrst.

Sendu okkur tölvupóst og við svörum eins fljótt og auðið er

rotfyllingar@rotfyllingar.is

Við erum staðsett á 4. hæð í Holtasmára 1, Kópavogi

Holtasmári 1

Hafðu samband við okkur í síma frá 8-16 mánudag til fimmtudag og 8-14 á föstudögum

552-6333