Rótfyllingar

Afhverju er rótfylling framkvæmd?

Rótfylling er framkvæmd til að bjarga tönninni þinni svo hún haldi áfram að nýtast þér frá degi til dags. Inni í tönnunum er vefur sem heitir kvika. Kvikan samanstendur meðal annars af taugum, æðum og bandvef og nær frá tannkrónu og alveg niður í rótarenda. Rótfylling er framkvæmd þegar kvikan bólgnar eða sýkist meðal annars vegna djúprar tannskemmdar, endurtekinna meðferða á tönninni, lekrar fyllingar eða krónu eða vegna sprungu í tönninni. Einnig getur tannáverki leitt til bólgu eða sýkingar í kviku þó svo ekkert sé sjáanlegt á tönninni, eins og brot eða sprunga. Ef kvikubólga eða -sýking er ekki meðhöndluð getur það valdið verkjum og bólgu.

Hvað er gert?

Rótfylling felur í sér að fjarlægja bólgna eða sýkta kviku úr tönninni þinni, sótthreinsa og víkka rótarganga og fylla upp í þá með sérstöku rótfyllingarefni. Meðferðin fer fram undir smásjá. Yfirleitt er rótfyllingarmeðferðin sársaukalaus eða -lítil sem næst með hjálp nýjustu tækni og deyfilyfja.

Hvað tekur rótfyllingin langan tíma ?

Það getur þurft allt upp í 3 heimsóknir til að ljúka við rótfyllinguna en flestar er hægt að klára í 1-2 heimsóknum. Sumar meðferðir eru flóknari en aðrar og krefjast meiri undirbúnings og lengri meðferðartíma.

Eftir meðferð

Eftir að rótfyllingarmeðferð líkur þarf þinn tannlæknir að setja nýja fyllingu í tönnina sem fyrst. Ef um er að ræða forjaxl eða jaxl þá er eindregið mælt með því að setja krónu á tönnina til að vernda hana gegn broti svo hún endist þér sem lengst.

Sendu okkur tölvupóst og við svörum eins fljótt og auðið er

rotfyllingar@rotfyllingar.is

Við erum staðsett á 4. hæð í Holtasmára 1, Kópavogi

Holtasmári 1

Hafðu samband við okkur í síma frá 8-16 mánudag til fimmtudag og 8-14 á föstudögum

552-6333